Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007
29.1.2007 | 21:10
Skekkt úrtak?
Það var fyrirtækið ACNielsen sem gerði könnunina og þátt í henni tóku rúmlega 25.000 netnotendur.
Ég hef ekki hugmynd um hvernig þessi könnun var gerð, en þessi aðferðafræði hljómar ekki traustvekjandi. Spyrja netnotendur? Úff - úrtakið er nánast pottþétt skekkt, en skekkt úrtak gerir það að verkum að könnunin gefur líklega rangar niðurstöður. Að minnsta kosti er hæpið að taka mark á henni.
13% Bandaríkjamanna hafa aldrei heyrt um hlýnun andrúmsloftsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.1.2007 | 00:25
Enn og aftur: Ein rannsókn höfuð fyrir fullyrðingu
Þessi grein er varhugaverð. Blaðamennirnir sem hana skrifa gera sömu mistök og ég hef bent á áður 1, 2, að vísa í eina rannsókn. Þeir gera líka önnur mistök, sem ég hef bent á áður 3, að vísa ekki í upprunalegu heimildina heldur afrita eftir öðrum - í blindni, geri ég ráð fyrir.
Ein rannsókn getur haft mikla þýðingu í vísindaheiminum, en hún þarf að vinna sér inn ákveðinn sess til að menn taki mark á henni, þess vegna eru rannsóknir endurteknar, skeggræddar og prófaðar frá ýmsum hliðum.
En hvernig væri nú að breyta þessari blaðamennsku um vísindi... sem dæmi, hvernig væri nú að gera skemmtilega, heildstæða, úttekt á því hvað næringarfræðingar og læknar mæla með að fólk éti og éti ekki og hvaða samsetningu þeir mæla með? Það væri mjög gagnlegt fyrir hinn almenna borgara að vita það! Hann væri þá kannski nær því að vita hvernig hann getur tryggt langlífi og komið í veg fyrir ótímabært hjartaáfall. Eða þá að úttekt á því hvernig nota má slökun til að tryggja betra líferni og minnka líkur á hjartaáfalli?
Já, það væru vísindafréttir í lagi. Þessar vísindafréttir íslenskra fjölmiðla 21. aldarinnar eru gegnumsneytt og gegnumgangandi algjört rugl.
Tengsl á milli tortryggni og hjartasjúkdóma | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2007 | 23:55
Vísindalega sannað - hreinræktað kjaftæði!
Já, hreinræktað kjaftæði segi ég. Það er fátt, ef nokkuð, sannað vísindalega. Það að sanna eitthvað er kannski aldrei hægt því að það það að vera algjörlega viss um að utanaðkomandi þættir, skekkjur í mælingum og annað, trufli ekki niðurstöður er sennilega ómögulegt. -- En kannski voru Moggamenn bara að slá á létta strengi? Ég held að ég fari ekki nánar út í að ræða þessa setningu.
En af hverju blanda menn alvöru og gamani í sama flokk greina? Hvað er að því að hafa einhvern flokk sem ekki ber titilinn "Vísindi og tækni", heldur frekar eins og "Gaman og skemmtun" (eða eitthvað...), og skella svona fréttum í hann? Mér finnst hræðilegt, að menn blandi fréttum sem er alvara á bakvið, eins og um tengsl hjartasjúkdóma og tortryggni, saman í sama flokk og grein sem er augljóslega mjög subjectív eins og þessi er. Ég segi subjectív, því að það má augljóslega deila hart um hvernig á að mæla óþægileg hljóð. Mat á hjartasjúkdómum er mun auðveldara að koma sér saman um hvernig má mæla.
Þess má líka geta að tengillinn í greininni virkar ekki, ég fæ upp Site Not Found.
Æluhljóð það versta í heimi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 26.1.2007 kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2007 | 22:43
BBC, enn og aftur...
Morgunblaðið heldur áfram að afrita vísindafréttir frá öðrum. Ég vona að BBC hafi ekki haft þetta eftir einhverju öðrum, sem hafði þetta eftir enn öðrum?
Og fyrir utan það, þessar fréttir sem eru birtar hérna, eins og þessi sem ég tengi í, eru yfirleitt gagnslausar fyrir hinn almenna borgara. Af hverju? Vegna þess að þessar niðurstöður eiga eftir að hljóta gagnrýni, af því að þetta er ein rannsókn. En líka vegna þess að ég efast um að eitthvað framhald verði þegar menn telja sig loksins hafa fundið út með nokkurri afgerandi vissu að tiltekin heilastöð sinni ákveðnu hlutverki, að blöðin fari þá að segja frá því. Það einmitt er þekking sem er mun verðmætari en þessi sem þessi blaðagrein hér segir frá! Það er mun meira gagn af því að vita að einhver heilastöð gegni ákveðnu hlutverki, og það sé mat vísindasamfélagsins að það sé nokkuð öruggt, frekar en að einhver ein rannsókn sýni það.
Ég er með hugmynd: Hvernig væri að blaðamenn myndu fara á stúfana og leita uppi hvaða skoðun geðlæknar, sálfræðingar og taugavísindamenn hafa á því hvers vegna menn misnota börn kynferðislega. Það er eitthvað sem fólk hefur meiri áhuga á, og gagnast því mun meira en þessi frétt, því get ég (nánast) lofað.
Ég hef meira að segja um þetta allt, og meira til, hér.
Umhyggjustöðin í heilanum fundin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2007 | 22:31
Ha?
Af hverju fékkst ekki markaðsleyfi? Útaf kostnaði? Af hverju fylgir það ekki fréttinni, af hverju markaðsleyfi fékkst ekki? Þetta er undarleg frétt.
Upplýsingar frá FDA í Bandaríkjunum um lyfið.
Nýtt lyf sem bjargar sjón ekki leyft hér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2007 | 17:42
Þarfaþing, en leysir þetta vanda skólans?
Leysir þetta úr fjárþörf Háskólans? Það hefði gjarnan mátt koma fram í greininni.
Annars held ég að þetta sé lyftistöng fyrir skólann. Mjög gott mál að þetta skuli vera farið í gegn. Menntamálaráðherra má eiga það, að þetta skyldi hafa komist í gegn.
Nýr samningur skapar forsendur fyrir að HÍ komist í fremstu röð í heiminum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.1.2007 | 19:37
Afar léleg blaðamennska
Þetta er blaðamennska af verstu sort, fyrir utan slúður og sorpblöð.
Hvernig tókst blaðamönnum að túlka niðurstöðurnar þannig að fólk taki betri ákvarðanir þegar það treystir innsæi sínu í stað þess að hugsa vel og lengi um hluti, sérstaklega þegar rétt á eftir kemur [í] rannsókn sem University Collage í London (UCL) gerði kom fram að skyndiákvarðanir í undirmeðvitundinni geta reynst betri við ákveðnar aðstæður heldur en að beita rökhugsun. Það er nefninlega það. Mun betra væri að segja að fólk taki betri ákvarðanir þegar það treystir innsæi sínu þegar aðstæður eru ákveðnar, heldur en að alhæfa svona og draga svo í land með alhæfinguna. Alhæfingar sem síðan er dregið úr geta verið í lagi, en það eru léleg skrif að gera það undir svona kringumstæðum.
Og svo við snúum okkur að hinu, sem er öllu verra. Þetta eru tíu einstaklingar í einni tilraun, sem blaðamennirnir leyfa sér að alhæfa út frá! Þetta er hræðilegt. En þess utan, þá er afar hæpið að alhæfa mikið út frá þessari tilraun vegna þess hve verkefnið er einfalt, eins og blaðamennir gera með því að segja að skyndiákvarðanir í undirmeðvitundinni geta reynst betri við ákveðnar aðstæður heldur en að beita rökhugsun. Það má kannski minna á að verkefnið fólst í því að leita að tákni á tölvuskjá, en ekki að leysa flókna þraut. Ég reyndar spyr mig líka, við hvaða aðstæður er betra að láta þessa meintu undirmeðvitund leysa málið?
Rannsóknina má nálgast hér.
Skyndiákvarðanir geta stundum reynst vera þær bestu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
8.1.2007 | 21:27
Tilgangurinn með þessari síðu
Eftir að hafa skoðað mínar eigin færslur aðeins betur sé ég að það má vel túlka þessi skrif mín hérna sem tuð. Ég held að ég útskýri tilganginn með þessari síðu aðeins.
Ég hef núna nýlega tekið aftur til við að lesa greinar íslenskra fjölmiðla um vísindi eftir nokkuð gott hlé og hef áttað mig smám saman á því að þeir segja alls ekki rétt frá vísindum. Margar greinar eru í þeim dúr að þær eru skrifaðar upp úr grein sem vísindamenn fá birta í einhverju vísindatímariti. En það er grunnvandamál við það: Einstakar rannsóknir eru að jafnaði hvorki lýsandi fyrir vísindaheiminn né það viðfangsefni sem menn eru að rannsaka. Einstakar rannsóknir mynda oftast nær brot úr heildarmynd sem verður smám saman til, og það er þessi heildarmynd sem verður til þess að vísindamenn ná samstöðu um að þeir hafi náð að lýsa viðfangsefni sínu nægilega vel. Það að ná að mynda þessar heildarmynd tekur yfirleitt langan tíma. Það getur þó vel átt við að segja einstökum rannsóknum, til dæmis þegar um er að ræða frumkvöðlarannsóknir, en þá þarf að gjöra svo vel og taka fram að um sé að ræða fyrstu niðurstöður og að líkindum eigi mikið eigi eftir að rannsaka.
Hitt sem ég sé er að þeir sem skrifa greinarnar skrifa þær upp eftir erlendum fjölmiðlum. Ég veit það hefur gerst að grein hefur verið skrifuð upp af einhverjum fjölmiðli úr vísindatímariti, sú grein var þýdd af öðrum og sá þriðji hefur þýtt greinina frá þeim sem var annar í röðinni. Ætli það sé algengt? Hvernig ætli merkingin fari þegar svoleiðis er farið með, sérstaklega ef þýðingin er lausleg, eins og mig grunar að sé raunin? Fyrst menn eru að þessu, af hverju ekki að gera þetta sjálfir? Og geta heimilda! Ekki bara segja, sem dæmi: Þetta kemur fram í Annals of Internal Medicine, eins og er svo gjarnan. Mun betra væri: Þetta kemur fram í desemberhefti Annals of Internal Medicine. Það er ekkert að því heldur að setja tengil í greinina!
Vísindagreinar fjölmiðlana þurfa ekki að vera stórar, flóknar eða neitt slíkt. En þær þurfa að hafa markvissan tilgang - sem mér sýnist að þeim skorti í dag. Hvernig væri að hafa að markmiði að segja frá núverandi skoðun vísindasamfélagsins á ýmsum atriðum? Til dæmis tengslum rauðvínsdrykkju og hjartasjúkdóma? Það að segja frá núverandi skoðun væri mjög gagnlegt fyrir almenning, fólk getur þá breytt hegðun sinni til samræmis þeirri skoðun sem vísindamenn hafa, sér og öðrum til hagsbóta. Höfuðmarkmið vísindanna er jú gagnsemi. Þegar ég segi núverandi skoðun vísindasamfélagsins dugir ekki til að vísa í einhverja tvo einstaklinga sem eru á sitthvorri skoðuninni. Það gengur ekki - einhverjir tveir eru ekki lýsandi fyrir vísindasamfélagið. Ef vísindasamfélagið er alls ekki sammála, væri gáfulegast að telja upp helstu rök allra hópa (sem vilja svo gjarnan myndast) og vísa svo veginn með hvar má fá frekari upplýsingar. Það finnst mér vera góð fjölmiðlun og þannig fjölmiðlun vil ég svo gjarnan sjá.
Fréttaflutningur fjölmiðlana held ég að geri það að verkum að fólk fær ranga hugmynd af því hvað vísindi eru. Sumir halda jafnvel að vísindi séu tæki eða tól, sem er alrangt. Sumir halda jafnvel að vísindi séu bara eitthvað sem gerist á tilraunastofum, og helst þurfa tilraunaglös og hvítir sloppar að koma mikið við sögu. Það er líka rangt. Vísindi er hugmyndafræði og ákveðin vinnubrögð, og til að útskýra það nánar er við hæfi, að Vísindavefnum sé gefið orðið: Hvað eru vísindi? Það er rétt að leggja áherslu á að vísindi felast ekki í neinu yfirflóknu né óskiljanlegu og þau eru ekki bara fyrir útvalda að skilja.
Stundum finnst mér eins og greinarnar fjölmiðlana séu settar fram í einhverju háði, sérstaklega þegar þær fjalla um eitthvað sem þykir sjálfsannað. Oftar er þeim þó gert temmilega hátt undir höfði. Stundum finnst mér líka eins og markmiðið með greinunum sé eitthvað allt annað en að fræða fólk, kannski frekar eins og sumar greinar sé ætlað verða bitbein einhvers kjaftasnakks? Ég vona ekki, það er innilega leiðinlegt ef svo er. Vissulega má gera gys að vísindum, vísindamönnum eins og öllu öðru, en mér finnst fjölmiðlar ekki vera rétti staðurinn, sérstaklega þegar ímynd vísindanna er svo misskilin eins og raun ber vitni. Það er bara til skaða.
Ég er sem sagt að þessu til að fólkið í landinu fái meira af gagnlegum upplýsingum, en líka til að þetta sama fólk fái betri hugmynd um hvað vísindi eru í gegnum fjölmiðla.
Vísindi og fræði | Breytt 23.1.2007 kl. 00:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.1.2007 | 15:30
Ágæt fréttamennska
Ég er búinn að skrifa nokkra krítíska pistla um vísindagreinar hérna. Núna rak ég augun í eitthvað sem mér finnst jákvætt...
Þessi frétt um vísindi er fín og af allt öðrum meiði en greinar um einstakar rannsóknir. Það eina sem ég sé við hana er að skammstöfunin PTSD er dálítið skrítin þarna nema fyrir þá sem þekkja til, en skammstöfunin merkir Post-traumatic stress disorder. Það hefði farið betur á ef þetta hefði verið sett hreinlega svona: (e. Post-traumatic stress disorder) í greininni í stað (PTSD). En annars er þetta ágætis grein.
Áfallastreita rannsökuð meðal fórnarlamba flóðbylgjunnar miklu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.1.2007 | 14:43
Áhugavert - en segir ekki alla söguna
Það sem er afar áhugavert við upprunalegu rannsókina er það að annað aðalmarkmið hennar var að skoða hvort það skipti máli hvaða aðferðir eru notaðar til að mæla þunglyndi og drykkju, upp á það að gera hversu sterkt samband milli þunglyndis og drykkju mælist. Hitt aðalmarkmiðið var að skoða hvort að sambandið sem kemur í ljós sé af ákveðinni tegund. Niðurstaða rannsóknarinnar er: Það er greinilegt að það hvernig þunglyndi og áfengisneysla eru mæld skiptir máli upp á það að gera hversu sterkt sambandið mælist.
Af hverju að rannsaka þetta? Jú, vegna þess að misvísandi niðurstöður hafa fengist úr rannsóknum, eftir því hvaða aðferðir voru notaðar til að mæla. Hvað segir þetta manni um eina, tiltekna rannsókn, eins og er einmitt flaggað í þessari grein? Það að það sé ekki eðlilegt að taka henni of alvarlega strax, heldur bíða eftir gagnrýni og sjá hvað frekari rannsóknir segja, og fella dóm síðar? Það hlýtur bara að vera. Það er eðlilegt að spyrja af hverju þetta eigi alltaf við. Og svarið er: Bitur reynsla sýnir að ein rannsókn getur gefið niðurstöður sem eru ólíkar niðurstöðum annarar sambærilegrar rannsóknar. Oft er erfitt að finna ástæðuna fyrir því þegar þetta gerist og stundum þarf aðra rannsókn til að finna ástæðuna. Vegna þess hve þetta er nokkuð algengt í vísindum, hlýtur að vera eðlilegt að taka öllum rannsóknum með varúð, svo maður geri ekki sömu mistökin trekk í trekk; að taka einni rannsókn of alvarlega.
Ég myndi segja að þessi frétt segi afar illa frá því sem rannsóknin snerist um. Hvaða hugmynd fær maður af rannsókninni eftir að hafa lesið þessa grein? Allt aðra en þá sem maður hefði átt að fá, ekki satt? Hefði maður ekki átt að fá að vita það að það fáist misvísandi niðurstöður eftir því hvernig áfengisneysla og þunglyndi eru mæld? Það held ég nú!
Rannsókina er hægt að nálgast hér.
Tengsl fyllirís og þunglyndis meiri hjá konum en körlum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)