Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Enn um tölfræði: Nú línurit

Er ekki furðulegt þegar menn skella í greinar línuritum sem sýna nánast engar upplýsingar og eru auk þess afar villandi? Eitt svoleiðis var í Fréttablaðinu í dag (30. mars 2007) á bls. 7:

 

Þetta graf er villandi, vegna þess að það sýnir mikla dýfu í áætluðum tekjum ríkissjóðs á næstu tveimur árum. Hve mikil er lækkunin í tekjum árið 2009, miðað við árið 2007? Jú, 4 prósent.  Af myndinni að dæma gæti virst sem það séu 10-15 prósent! Sama gildir um hækkun gjalda.

Þetta graf er innihaldslítið. Ég get ekki reiknað út mismun gjalda milli 2006 og 2009 því að það vantar að merkja tölurnar inn á grafið! Og það er enginn kvarði heldur! Til hvers að teikna línurit með engum kvarða? Hvað segja kvarðalaus línurit manni? Voðalega lítið! Þegar línurit án kvarða eru teiknuð á maður ekki að merkja einhversstaðar inn gildi, heldur á maður alltaf að merkja inn gildi svo að hægt sé að bera saman hvaða gildi í grafinu sem er - tilgangur línurita er jú að maður geti borið saman gildi auðveldlega. Í þessu línuriti hefði átt að merkja inn kvarða, að sjálfsögðu, og (sennilega) sleppa því að merkja gildin inn.

Ég tók mig til og teiknaði línurit sem sýnir sömu upplýsingar - næstum því, ég þurfti að skálda gildin sem vantaði. Það er ekki fallegt, en sýnir hvernig væri heppilegra að sýna þessar upplýsingar:


Ég veit reyndar um enn betri leið til að setja þessar upplýsingar fram. Í töflu (aftur, skáldskapur í stað talna sem vantaði):  
 TekjurGjöld
200547.642.3
200647.642.2
200747.642.3
200943.449


Þegar gröf eru teiknuð verður maður að hafa fast í huga hvað grafið á að sýna þeim sem skoðar það. Og maður ætti alls ekki að teikna upp villandi graf - það grefur undan trúverðugleika manns, hvort sem það var viljandi eða óviljandi að maður teiknaði villandi graf. 


Skekkjumörk?

Hver eru skekkjumörkin í þessari könnun? Af hverju er ekki sagt frá þeim? Er til dæmis innan skekkjumarka að fylgi Sjálfstæðisflokks eykst frá síðustu könnun og hvað með minna fylgi Vinstri Grænna?  Skekkjumörk eru bráðnauðsynleg, annars er ómögulegt að sjá hvort einhver veruleg breyting hafi átt sér stað!

Í hvers konar könnunum þar sem stuðst er við líkindaúrtök - eins og skoðanakannanir gera - er það svo að tölurnar sem reiknaðar eru út (t.d. 4,8% fylgi Frjálslyndra) eru ekki fullkomlega nákvæmar. Tökum þessa könnun hér sem dæmi: Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist 40,2%, en í reyndinni er fylgið annað, við vitum ekki nákvæmlega hvað það er - en það er nálægt 40%. Það sama gildir fyrir Vinstri Græna, fylgið mælist 25,7%, en í reynd er fylgið annað (kannski 29% - það er ekki vitað) - en fylgið er nálægt 25%. Til þess að hafa betri hugmynd um hvar raunverulegt fylgi liggur eru reiknuð skekkjumörk, sem eru ekki gefin upp hér!

Það má líka útskýra þetta öðruvísi: Tvær kannanir gerðar á sama tíma geta skilað ólíkum niðurstöðum, önnur skilar 19% fylgi Vinstri Grænna, en hin 23% fylgi Vinstri Grænna. Ímyndum okkar að skekkjumörkin væru 5%. Þá væri bilið sem fylgið liggur á 14% til 24% í "19% könnuninni", en samskonar bil 18% til 28% í "23% könnuninni". Raunverulegt fylgi væri samt 20%! Mismunandi niðurstöður, en sama fylgi.  Augljóslega er best að skoða fylgið með tilliti til skekkjumarkana.

Í reyndinni er það raunar svo að raunverulegt fylgi liggur stundum utan skekkjumarkana, en það er sjaldnast svo. Það skiptir ekki máli fyrir skoðanakannanir sem þessar. Því ætti að duga að gefa þetta upp svona:  "Fylgi Samfylkingar er á bilinu 18% til 23%". Ég skora á Morgunblaðsmenn að gera það næst! 


mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokks eykst mikið frá síðustu könnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skoðanakannanir

Skoðanakannanir eru eitt af mínum uppáhaldsumræðuefnum þegar kemur að gagnrýni. Minn áhugi á skoðanakönnunum snýr fyrst og fremst að þeirri aðferð sem er beitt til að safna gögnum um skoðanir fólks, hvernig er ályktað út frá gögnunum og hvernig ályktanirnar og gögnin eru sýnd almenningi.

Ég hef oft hugsað um hve illa skoðanakannanir eru settar fram í fjölmiðlum og oft hefur mig langað til að segja eitthvað um þær við aðra en sjálfan mig og vini. En núna hefur Hafrún Kristjánsdóttir tekið sig til og skrifað um tvær skoðanakannanir.  Ég mæli með pistlum hennar:  Um skoðanakönnun Fréttablaðsins,
um skoðanakönnun hjá Blaðinu, aftur um sömu könnun Blaðsins.


Fjölmiðlar og vísindi: Vísindamenn og fjölmiðlar þurfa að gera betur

Ég hef skrifað þó nokkra pistla hérna um vísindi og fjölmiðla. Í þeim hef ég gagnrýnt þær fréttir sem Morgunblaðið birtir um vísindi nokkuð hart. Gagnrýn mín á ekkert bara við um greinar Morgunblaðsins, hún á við greinar Vísis, Fréttablaðsins og fleiri miðla.

Ég beini spjótum mínum hins vegar fyrst og fremst að Morgunblaðinu vegna þess að mér finnst það vera einn af fáum fjölmiðillinn á íslandi sem nokkuð er varið í. Vegna þess að hann er einn af fáum sem eitthvað varið er í hef ég kosið að beina spjótum mínum að honum svo að hann geti orðið betri. Einhverjum kann að finnast þetta furðulegt, en það er ekkert furðulegt við þetta, vegna þess að gagnrýni mína má taka, skoða og nota til að betrumbæta fréttirnar sem Morgunblaðið flytur. Ég er ekki að reyna að brjóta Morgunblaðið niður til að "sigrast" á einhverjum. Nei, ég vil að blaðamenn Morgunblaðsins geri betur og nýti til þess gagnrýni mína. Ég myndi gjarnan vilja að Morgunblaðsmenn myndu gera það, þá myndi ég hrósa þeim oftar. Ég hef raunar þegar hrósað þeim í einhverjum pistlum.

Oft hefur gagnrýnin beinst að því að mér finnst fjölmiðlamenn ekki taka nægilegt tillit til þess að vísindagreinar sem eru nýbirtar í fagritum hafa ekki jafn mikið gildi og margar greinar sem kanna sama mál út frá ólíkum sjónarhornum eða tiltekinn hluta málsins. Staðreyndin er sú að þegar grein hefur verið gefin út hafa líklega ekki færri en 10-15 manns gagnrýnt hana, þeir hins vegar eru líklega ekki fleiri en 30 manns. Þegar greinin kemur út berst gagnrýni, stundum harkaleg gagnrýni, stundum engin, en stundum eru rannsóknirnar endurteknar vegna þess að eitthvað þykir athugavert við fyrri rannsóknina. Út úr slíkum rannsóknum getur ýmislegt komið, t.d. að alvarlegur galli hafi verið á fyrri rannsókninni, eða þá að eitthvað þarfnast nánari skoðunar.

Þetta er einn mikilvægasti hluti vísindasamfélagsins: Gagnrýni, gagnrýni og aftur gagnrýni. Gagnrýnin er ekki til að sigrast á einhverjum eða að gera lítið úr honum, heldur til þess að finna út hvað er satt. Vísindin eru eilíf barátta fyrir sannleikanum. 

Vísindamenn eru hins vegar ekki nógu duglegir við að segja almenningi, fólki eins og mér og íbúum heimsins,  frá því hvað hefur komið út úr rannsóknum þeirra. Það er hins vegar nauðsyn að þeir geri það og þar þurfa þeir að standa sig betur. Það getur til dæmis orðið til þess að eyða misskilningi hjá almenningi, en misskilningur um ýmis mál lifir góðu lífi í samfélaginu. Og það er ekki skortur á eftirspurn eftir vísindafréttum, um það ber líklega vitni að fréttir um vísindi eru yfir höfuð birtar, en þær eru ekki nógu góðar og fjalla oft aðeins um nýjustu rannsóknir.

Hvað eiga vísindamenn að gera til að koma efni sínu frekar á farmfæri til fólks? Yfirlitsgreinar í dagblöðum? Sér tímarit sem fást við mál sem fólki eru hugleikin? Eitthvað þarf að gera, það er ljóst. En hvað?


Furðulegt samhengi og furðuleg uppsetning á frétt

 Þessi grein er ein af þessum undarlegu sem birtist reglulega (eða óreglulega) á Mbl.is. Fréttin lítur svona út:

Breskir reykingarmenn taka sér að meðaltali hálftíma pásu á dag til þess að fá sér að reykja, en þetta kemur fram í nýrri könnun. Alls voru 1.000 fullorðnir einstaklingar rannsakaðir og niðurstaðan varð sú að meðalreykingarmaður tekur sér þrjár 10 mínútna pásur á meðan hann er í vinnunni til þess að svala fíkn sinni.

Samkvæmt rannsókn The Benenden Healthcare Society er talið að um 290.000 vinnudagar glatist í Bretlandi ár hvert reykingarmenn á vinnustöðum taka sér reykingarpásu.

Rannsakendurnir segja að reykingarpásur valdi deilum á mörgum vinnustöðum, að því er fram kemur í frétt BBC.

Reykingarmenn á Norður-Bretlandi taka sér flestar pásur, en aðeins 13% þeirra komast í gegnum daginn án þess að fá sér „smók“.

Til samanburðar má nefna að um tæpur þriðjungur reykingamanna frá miðhéruðum Englands og 20% reykingarmanna í suðrinu geta komist í gegnum vinnudaginn án þess að reykja.

Þá kemur fram í niðurstöðum rannsóknarinnar að sumir starfsmenn hafi tekið sér allt að sjö reykingarpásur yfir daginn.

Hvað er The Benenden Healthcare Society og hvernig tengist það þessari könnun? Gerðu þeir rannsóknina? Kom eingöngu málsgreinin um að reykingapásur valdi deilum af vef BBC, eða öll greinin? Af hverju er þetta ekki skýrara? Af hverju ekki að vísa bara í heimildina neðst eins og svo margir gera? Þarf endilega að slíta fréttina algjörlega í sundur? Ein setning í línu og svo greinarskil, eins og margir erlendir fjölmiðlar gera - sem er ömurlegt.

Ég ætla að prófa að setja upp grein sem er skýrari og fallegri:

Ný rannsókn The Benenden Healthcare Society leiddi í ljos að Breskir reykingarmenn taka sér að meðaltali hálftíma pásu á dag til þess að fá sér að reykja. Samtökin veita félögum sínum ókeypis læknisaðstoð og aðra aðstoð þegar þeir þurfa.

Rannsóknin náði til 1.000 fullorðninna einstaklinga og niðurstaðan varð sú að meðalreykingarmaður tekur sér þrjár 10 mínútna pásur á meðan hann er í vinnunni til þess að svala fíkn sinni. Samtökin halda því fram að um 290.000 vinnudagar glatist í Bretlandi ár hvert reykingarmenn á vinnustöðum taka sér reykingarpásu. Að auki segja rannsakendurnir að reykingapásur valdi deilum á mörgum vinnustöðum.

Reykingarmenn á Norður-Bretlandi taka sér flestar pásur, en aðeins 13% þeirra komast í gegnum daginn án þess að fá sér „smók“. Til samanburðar má nefna að um tæpur þriðjungur reykingamanna frá miðhéruðum Englands og 20% reykingarmanna í suðrinu geta komist í gegnum vinnudaginn án þess að reykja. Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur einnig fram að sumir starfsmenn hafi tekið sér allt að sjö reykingarpásur yfir daginn.

BBC sagði frá þessu (grein BBC). 

Til gamans má geta að mér finnst að því er kemur fram hljóma alveg óheyrilega illa. Að því er kemur fram? Er höfundurinn að varpa af sér ábyrgð með þessu? Að því er kemur fram á vef þeirra þá ...  eða hvað? Mun skýrara er að segja: Samkvæmt X þá er...

-- 

Þó svo að ég taki Morgunblaðið fyrir hérna, þá eiga þeir svo sannarlega ekki skilið að fá eingöngu á sig gagnrýni. Vísir á þessa gagnrýni líka skilið.  


mbl.is Breskir reykingarmenn taka sér hálftíma reykingapásur frá vinnu á dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skoðanakannanir - mælikvarði á gæði?

Egill Helgason skrifar á umræðusvæði Vísis:  

Á Íslandi höfum við besta landbúnað í heimi og bestu landbúnaðarvörurnar. Þetta er búið að staðfesta í skoðanakönnun.

 Ég veit ekki, á þetta að vera grín? Ég ætla að prófa að taka þessu sem alvöru.

Þó svo að fjöldinn kaupi eitthvað fremur en annað, þarf það ekki að vera vegna þess að það er besta varan. Til dæmis kann að vera, að fyrirtækið sem markaðssetur vöru sé með afar snjalla markaðsfræðinga (þeir eru til) í vinnu hjá sér, og þeir séu svo snjallir að fá fólk til að kaupa. Ef fólki líkar eitthvað vel, og markaðsfólkið fær það til að halda áfram að kaupa það, þá getur liðið afar langur tími þar til fólk prófar eitthvað nýtt, eitthvað ennþá betra. Hér skapast því vandamálið um hvenær maður getur vitað hvort eitthvað sé betra en hitt sé þessi mælikvarði (fjöldans) notaður.

Önnur spurning er líka hvort fólk almennt sé að prófa að kaupa aðrar vörur (að fólk geri það almennt er forsendan fyrir því að það meirihlutinn velji bestu vöruna) til að sjá hvort þær séu betri? Ég veit það ekki. Ég set spurningarmerki við það, að minnsta kosti. Enn önnur er hvernig fólk fer að því að meta hvort eitthvað sé betra. Það er óljóst og misjafnt milli fólks.  

Er svona erfitt að sjá þetta? Eða hefur Egill ef til vill ofurtrú á markaðskerfum og mótar allt eftir því? Ég veit ekki.

En ég vara við því að taka skoðanakönnunum sem mælikvarða á hitt eða þetta. Hegðun fólks er margslungin og flókin, það þarf engum að segja.


Víkverji, gagnrýni fjölmiðla á aðra fjölmiðla

Guðbjörg Hildur Kolbeins skrifar pistil um Víkverja hjá Morgunblaðinu. Ágætur pistill, finnst mér. Fjölmiðlar eiga að fá gagnrýni, eins og aðrir.

Gagnrýni er ekki slæm í eðli sínu, hún er ábending um að eitthvað megi betur fara og þarf alls ekki að vera neikvæðni. Stundum þarf þó að bremsa á gagnrýnina (þetta á þó ekki við um vísindi og fræði), ef gagnrýnin er óviðeigandi eða hreinlega óþörf. 

Ég held reyndar að ég skilji vel ef fjölmiðlamenn fá á sig gagnrýni í massavís, að þeir verði pirraðir og þreyttir á því. Þeir standa jú í eldlínunni - ef svo má að orði komast - því þeir eru að segja frá einhverju sem hefur gerst nýlega, er kannski óljóst enn og getur breyst á hverri stundu. Að því leyti mega gagnrýnendur passa sig; upplysingar eru ekki alltaf til reiðu og málin geta þróast hratt, þá getur verið erfitt að púsla saman góðri frétt. En annars mega fjölmiðlamenn alveg taka á sig gagnrýni.


Meira af "fréttum"

Hrotur maka kosta rúmlega þriðjung Breta alls tveggja ára svefn yfir ævina samkvæmt nýrri könnun. Fréttavefur BBC segir frá þessi. Helmingur þátttakenda, sem voru 2.000 talsins, sögðu að hroturnar hefðu neikvæð áhrif á kynlíf þeirra, en 85% voru á því að sambandið myndi batna ef hægt væri að stöðva hroturnar.

 Vá, þetta eru gríðarleg vísindi. Mikill fróðleikur í þessu. Afsakið hæðnina. Þetta er náttúrulega ótrúlega gagnslausar upplýsingar. Auðvitað skapar svefntruflanir vandamál í samböndum, það gefur auga leið (ég þarf ekki að sýna rökin fyrir því, er það?) Og að sjálfsögðu myndi það batna ef svefntruflanirnar hverfa! Auk þess, eru þetta ekki áætlaðar tölur? Hvernig ætla menn að fara að því að komast að því hve miklu svefnleysi hrotur valda? Það er eitthvað hæpið, nema kannski að komið sé fyrir búnaði og gerð tilraun (og jafnvel þá er óvissa!). Þetta hlýtur að vera áætlað - af hverju er það ekki sagt þá?

Talsmaður bresku svefnsamtakanna segir BBC að mikilvægt sé að ná nægum svefni, og að svefnleysi geti haft slæm áhrif á líkamlega og andlega heilsu og að svefnleysi hafi verði tengt við slæma frammistöði í námi, auknar líkur á offitu og sykursýki, skilnaði, aukna sjálfsmorðstíðni m.a.

 Þetta er líka vel vitað. Svefn gegnir mikilvægu hlutverki í líkamsstarfseminni, að minnsta kosti fyrir flesta. Þeir eru örfáir sem sofa afar lítið og þurfa ekki að þola fyrir það. Aðrir gera það. Þetta er vel vitað og hefur verið það lengi. Hvar eru fréttirnar?

Svefn við hlið manneskju sem hrýtur getur þýtt að viðkomandi tapar allt að tveggja klukkustunda svefni á hverri nóttu, sambönd eru sögð vara að meðaltali um 24 ár, en þetta þýðir með þeim útreikningum sem beitt er í rannsókninni að Bretar sem þjást vegna hrjótandi maka tapa um tveggja ára svefni alls.

 Þessi rökleiðsla er út í hött."Svefn við hlið manneskju sem hrýtur getur þýtt...". Ein pæling hér: Til að þetta gildi um alla, þurfa þessi 2.000 að vera valin af handahófi (til að minnka áhrif frá öðrum áhrifaþáttum) - var það gert? Snérist rannsóknin kannski um eitthvað allt annað, eins og ég hef komist að áður um vísindafréttir birtar hér?

 Ég skora á Moggamenn að fjarlægja þessa frétt, hún er út í hött. Það að aðrir skulu birta hana gerir það ekki að verkum að það sé allt í lagi að birta hana sjálfur - og það gerir það ekki skárra heldur. Ég skora líka á Moggamenn að breyta um áherslur: Hætta að þýða frá fjölmiðlum greinar sem skipta litlu sem engu máli fyrir almenning. Þessi fréttaflutningur af vísindafréttum gefur afar villandi mynd af því hvernig vísindi eiga sér stað. Ég mælist til að blaðamenn Morgunblaðsins fari og skoði málið vel og sjái sjálfir hvernig aðferðafræði vísindanna er, hvernig vísindi virka og hvers vegna það er vitlaust að segja frá einstökum greinum. Þá myndu þeir sjálfir skilja af hverju fréttirnar sem þeir þýða úr eru glórulausar!

Ég talaði hér aðallega um Morgunblaðið, en ég hefði alveg eins getað sagt Vísir/Fréttablaðið. Þeir sem þar skrifa vísindafréttir mega líka taka þetta til sín.


mbl.is Hrotur maka kosta mikinn svefn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ónákvæmni?

Hefur blaðið eftir prófessornum Luis Vitetta hjá háskólanum í Queensland að niðurstöðurnar séu áhyggjuefni þar sem afar umfangsmikill iðnaður standi að framleiðslu efna sem fólki sé talið trú um að séu heilsusamleg, en reyndin sé að þau séu beinlínis hættuleg .

 Hættuleg í of stórum skömmtum ætti þetta að vera, býst ég við. Annað gengur ekki upp.

Málið er að maður verður að hugsa sjálfur um hvað maður lætur ofan í sig, en ekki éta hvað sem er í hugsunarleysi. Sama gildir um vítamín og önnur slík efni - fólk ætti að gæta sín sérstaklega þar og leita sér að upplýsingum um hvað sé æskilegt að éta mikið. 


mbl.is Fjörefnin banvæn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eh?

Þetta eru nákvæmlega engar fréttir. Þetta hefur verið vitað mjög lengi. 

Það hefur verið hægt að lesa um þetta á t.d. Wikipedia heillengi - þetta er ekkert nýtt! 

Hvernig væri nú að færa alvöru vísindafréttir? Eitthvað merkilegt... pistlarnir um loftslagsáhrifin voru t.d. mjög fínir.


mbl.is Lítið gagn í kaffibollanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband