Rangfærsla

Mig langar til að benda á dálítið sem mér finnst skrítið við sem segir á vefsíðunni sem fréttin vísar í.

[..] Auk þess mun höfn í Bakkafjöru ekki stytta leiðina í höfuðstaðinn að neinu ráði þar sem ljóst er að siglingin mun taka 40 mínútur og þá tekur við akstur á einum af hættulegri vegum landsins í tæpar 2 klukkustundir. Til samanburðar má geta þess að sigling með Herjólfi milli lands og eyja tekur í dag 2 klukkustundir og 45 mínútur.

Þessi samanburður er auðvitað rangur, það vantar að taka inn í myndina að í dag þarf að keyra í um 30 - 40 mínútur frá Þolákshöfn til Reykjavíkur. Við þessar tvær klukkustundir og 45 mínútur bætist því við að lágmarki hálftími. Og er það rétt að það taki tvær klukkustundir að keyra frá Bakkafjöru til Reykjavíkur? Hvað er þetta langt? Er það líka rétt að þessi vegur sé svona hættulegur?


mbl.is Safna undirskriftum gegn Bakkafjöru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sendum sálgreiningu í limbóið?

 "Who knows but that in future years neurosurgeons may apply direct selective shock therapy to the hypothalamus, thereby relegating psychoanalysis to that scientific limbo where perhaps it belongs?"

                                                                                                    - William B. Scoville

William B. Scoville var taugalæknir sem starfaði um miðbik tuttugustu aldar. Fimmtíu árum síðar erum við enn að kljást við sálgreiningu, sem lifir góðu lífi.

Annars var Scoville þessi eiginlega alræmdur, hann t.a.m. gerði misheppnaða aðgerð á H.M., þekktum manni innan sálfræði og taugavísinda. H.M. þessi gat eftir þá aðgerð ekki munað nýjar staðreyndir né myndað nýjar minningar.


Rök gegn reykingabanni - rökleysa?

Á vefnum Málsvara birtist grein sem fjallar um reykingabannið. Þar segir að helstu rök ríkisins fyrir reykingabanni sé að vernda starfsfólk:

Rökin sem helst voru notuð með banninu voru þau að vernda bæri starfsfólk á veitinga- og skemmtistöðum fyrir óbeinum reykingum. Veit nú ekki alveg með þau rök, því ef þú ræður þig í vinnu þá verðurðu að ráða við starfsumhverfið hverju sinni og ef þér mislíkar, þá geturðu alltaf sagt upp. Það er enginn að neyða neinn til að vinna á veitinga- eða skemmtistöðum.

 Það skemmtilega við þessi rök er að það má yfirfæra þau yfir á verksmiðjustarfsemi. Ef manni mislíkar að eitruð efni séu notuð í verksmiðjunni sem maður vinnur í, án þess að hlífðarbúnaður sé í boði, getur maður alltaf hætt og fengið sér aðra vinnu. Vinnu þar sem eiturefnin eru ekki notuð eða hlífðarbúnaður er til staðar. En er það raunhæft þegar vinnuvernd er lítil sem engin? Nei, auðvitað ekki. Líklega kemur eitthvað annað í staðinn fyrir eiturefnin.

Ég vil aðeins með þessu benda á hve fjarstæðukennd þessi röksemd er, þegar við höfum reynslu af öðrum greinum þar sem fólk hafði ekkert val,  fyrir tíma nútíma vinnuverndar. Fólk varð að vinna við lélegar aðstæður, það var ekkert annað í boði. Þar til væntanlega að menn fóru að setja lög og reglur.

En kannski má leysa þetta vandamál með öðrum hætti? Vonandi. En hvatning verður að vera til staðar, hver sem hún er - og það er greinilegt að hún var lítil þar til löggjafinn ákvað að setja lög. Þeir sem ekki reyktu létu það nefninlega oft yfir sig ganga að sitja í reyknum...  


Ekkert að marka svona kannanir

Enn og aftur er gerð "skoðanakönnun" meðal lesenda netmiðils. Og aftur er þess ekki gætt að sá hópur er spurður sé lýsandi fyrir alla þá sem könnunin á gilda um.

Til hvers er verið að halda úti svona könnunum, hvað þá að vísa í þær í fjölmiðlum, rétt eins og þær séu eitthvað merkilegar? Til hvers? 

Nánari umfjöllun um tilgangsleysi kannana eins og þessarar má finna hér. Ég stend við fyrri yfirlýsingar mínar um að kannanir af þessum toga séu einskins nýtar.

Það er rétt að geta þess að Eyjamenn voru og eru ósammála um hvað eigi að gera í samgöngumálum eyjanna. Alvöru skoðanakönnun - sem var að vísu gerð fyrir nokkru síðan - bendir til að um 50% eyjamanna vilji bakkafjöru en hinn helmingurinn nýja ferju. En aftur, það er gömul könnun.  


mbl.is Meirihluti andvígur Bakkafjöru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilgreining í alfræðiorðabókastíl á sálfræði

Sálfræði væri rétt skilgreind í alfræðiorðabók svona:

Sú grein vísinda þar sem rannsakendur hennar eru ekki sammála um hvað fagið snýst. Sumir segja að sálfræði snúist um hugsun, hegðun og heila, á meðan aðrir segja að hugsun sé hegðun svo viðfangsefnið sé í raun hegðun og heili. Sálfræði er einnig sú grein innan vísinda þar sem rannsakendurnir eru ósammála um hvaða aðferðir eigi að nota til að rannsaka viðfangsefnin - hver sem þau nú eru.

Jafnvel ganga sumir svo langt að segja að maður nokkur frá Vín, Sigmund Freud að nafni, hafi stundað sálfræði og þar með vísindi. Flestir segja að það sé þvæla. Aðrir segja að hann hafi verið loddari sem vildi verða frægur. Aðrir hafa ásakað hann um að vera haldinn duldum óskum. Freud skrifaði marga hillumetra af bókum um meintar rannsóknir sínar.

Aðrir segjast hafa fundið út einhvers konar manngerðir með því að spyrja fólk um það sjálft og reikna út úr þeim gögnum. Þeir samt vita ekki hvað þeir fundu út með þessu, bara eitthvað. Þeir hafa samt skrifað marga hillumetrana af bókum um viðfangsefni sín.

Enn aðrir segjast hafa fundið orsakir hegðunar með því að rannsaka dúfur og rottur. Sumir þeirra hafna meira að segja að hugsun skipti máli fyrir hegðun! Þeir, sömuleiðis, hafa skrifað marga hillumetra um rannsóknir sínar. Mest um dúfur og rottur. Samt tala þeir aðallega um fólk.

Þeir eru fleiri sem stunda rannsóknir í sálfræði. Þessir þykjast rannsaka hvað fólk hugsar með því að leggja fyrir það verkefni. Einn rannsakandi lét fólk leysa þraut. Svo sagðist hann geta sagt hvað fólkið var að hugsa. Rotturannsakendurnir andvarpa þegar þeir heyra svoleiðis nefnt og segja 'Lærðu þeir aldrei um hvað raunvísindi snúast?'.

Og svo eru það þeir sem setja fólk í stóla og plata fólkið til að halda að það hafi gefið annari manneskju raflost. Með þessu segjast þeir hafa fundið út að í raun hafi fólk látið stjórnast af yfirvaldi, sjálfum rannsakandanum. Jafnvel hafa menn lokað í fangelsi sjálfboðaliða, fangelsi sem var rekið af öðrum sjálfboðaliðum. Tveir þátttakendana fengu taugaáfall og voru lagðir á sjúkrahús. Fangelsinu var lokað eftir fimm daga rekstur. Rannsakendurnir sögðust hafa fundið út að aðstæður stjórnuðu fólki.

Allt segist þetta fólk stunda sálfræði. 

 Ég ýki ekkert voðalega mikið með þessari framsetningu. Sálfræði er einkar ruglingslegt fag.


Trúarbrögð koma í veg fyrir handþvott á sjúkrahúsum

 Dr Mark Enright, professor of microbiology at Imperial College London, said: "To wash your hands properly, and reduce the risks of MRSA and C.difficile, you have to be able to wash the whole area around the wrist.

But the Islamic Medical Association insisted that covering all the body in public, except the face and hands, was a basic tenet of Islam.

"No practising Muslim woman - doctor, medical student, nurse or patient - should be forced to bare her arms below the elbow," it said.

Svona er Bretland í dag. Sjá hér.

Trúarbrögð eru ekki alslæm, en þetta er svo sannarlega einn af dekkri afkimum þeirra. Handþvottur á sjúkrahúsum er að sjálfsögðu grundvallaratriði, þeir sem ekki vilja þvo sér verða að sjálfsögðu að víkja fyrir öðrum sem eru reiðubúnir til þess.  

 

 


Undarlegar skoðanakannanir

Áðan rakst ég á þessa skoðanakönnun á Vísi:

 Í síðastu viku voru lesendur Skessuhornsvefjarins spurðir hversu margar bækur þeir hefðu fengið í jólagjöf. Kom í ljós að ríflega 55% þeirra sem svöruðu höfðu fengið 1 til 3 bækur og tæplega 12% fengu fórar til sex. Um 3% fengu fleiri en sex bækur að gjöf. Það vekur hins vegar athygli að tæplega 30% svarenda fengu enga bók í jólagjöf.

Venjulega þegar menn gera skoðanakannanir leitast menn við að svara tiltekinni spurningu eða tilteknum spurningum. Þess vegna taka þeir úrtak úr einhverjum hóp og spyrja hann, en það gera þeir vegna þess að það tekur yfirleitt of langan tíma að spyrja allan hópinn. Úrtakið er valið þannig að allir sem eru í hópnum eigi jafnan möguleika á að lenda í úrtakinu. Svo alhæfa rannsakendurnir niðurstöðuna yfir á hópinn út frá niðurstöðum úrtaksins.

Þetta er allt rökrétt og gott. Sérstaklega er gott þegar menn nota vikmörk, en þau gefa til kynna að treysta megi niðurstöðunum með vissum skekkjumörkum. Gott og vel.

Þessi könnun Skessuhornsvefjarins er ekki af þessu tagi. Það er ekki stjórnað hver lendir í úrtakinu, þannig að það er algerlega óljóst um hvaða hóp úrtakið á að gilda. Hver sem er getur tekið þátt. Afskaplega ósennilegt er að úrtakið hafi óvart verið þannig að það megi alhæfa um alla lesendur Skessuhorns, en í það minnsta getum við ekki vitað það vegna þess að við vitum ekki hverjir svöruðu spurningunni! Það eina sem svona kannanir segja, með nokkurri vissu, eru skoðanir þeirra sem svöruðu. 

Hvað segja svona kannanir þá, fyrir utan þá sem svöruðu könnunni, sem við vitum ekki einu sinni hverjir eru? Ekki neitt.

Vitanlega gildir þetta sem ég segi um fleiri kannanir en þessa birtist á Vísi. Þetta gildir um allar þær kannanir þar sem er ekki stjórnað hverjir lenda í úrtakinu. Og fyrst þessar kannanir segja ekki neitt, til hvers er fólk þá að þessu?


Vísindafréttaskáldskapur á Vísi

 Þessi frétt birtist á Vísi fyrir nokkrum dögum:

Vísindamenn hjá bandarísku geimferðastofnuninni NASA velta nú vöngum yfir mynd sem eitt af geimförum þeirra sendi til jarðar frá Mars. Mars-bílarnir Opportunity og Spirit hafa ekið um yfirborð plánetunnar síðan í apríl árið 2004.

Þeir eru að leita að vísbeingum [sic] um að vatn finnist á Mars, en það er forsenda þess að þar geti þrifist líf.

Í áslok sendi annar þeirra til jarðar mynd sem sýnist vera af einhverri lifandi veru á gangi um yfirborð plánetunnar.

Vísindamennirnir liggja nú yfir myndinni til þess að reyna að skera úr um hvort þetta sé skuggi, steinmyndun....eða hvort þarna sé í raun Marsbúi á ferðinni.

Og meðfylgjandi ruglinu var þessi mynd hér:

Rosa sniðug frétt, þetta. Ég tók henni sem gríni. En hversu margir skyldu misskilja greinina og taka því alvarlega að alvarlegir vísindamenn hjá NASA - hvorki meira né minna - væru að rannsaka málið? Svona vísindaskáldskapur er ekki vísindunum til framdráttar og alls ekki til að bæta skilning fólks á þeim.

Vísindamenn verða að fara að segja eitthvað við lélegum vísindafréttum. Verst að sumir þeirra taka þátt í kjaftæðinu.


Erum við rotturnar?

Erum við rotturnar?

Hvað hefur sagan kennt okkur?

Það eina sem sagan hefur kennt okkur er að við höfum ekkert lært af henni[1].


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband