Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007
29.11.2007 | 01:34
„Fjárfestar tapa fé“
Úr frétt af vef RÚV í dag:
Markaðsvirði hlutabréfa í 12 stærstu fyrirtækjunum í Kauphöll Íslands hefur lækkað um 480 milljarða króna á einum mánuði. Úrvalsvísitalan hækkaði í dag um 2%.
Þegar litið er að þróun mála síðustu 30 dagana er ljóst að margur fjárfestirinn er að tapa umtalsverðum fjárhæðum. Úrvalsvísitalan samanstendur af bréfum 15 stærstu fyrirtækjunum í Kauphöllinni.
[..]
Það að fjárfestar tapi peningum þegar félög lækka í verði, án þess að þeir hafi selt, er tómt kjaftæði. Ef maður kaupir sér hlutabréf í Allianz eða Icelandair og verðið á bréfunum lækkar nokkru eða löngu síðar, án þess að maður hafi selt, hefur maður ekki tapað krónu. Af hverju?
Í fyrsta lagi eru hlutabréf ekki ígildi peninga; maður hefur ekkert grætt þegar verðið á bréfunum hefur hækkað né hefur maður tapað þegar þau lækka í verði. Auk þess, ef hlutabréf væru ígildi peninga myndi maður ekki græða neitt á að selja bréfin sín né tapa, ekki satt? Í öðru lagi hefur maður ekki tapað neitt á viðskiptunum nema að maður hafi selt og fengið minni peninga til baka. Höfum það í huga hér að hlutabréf eru einungis viðurkenning á því að eigandi þess eigi vissan hluta af höfuðstól fyrirtækisins og þar að leiðandi jafn stóran hluta af fyrirtækinu sjálfu.
Það þegar fyrirtæki eru sögð tapa peningum án þess að þau hafi selt er eingöngu bókhaldslegs eðlis, eitthvað sem hagfræðingum (býst ég við?) hefur fundist sniðug leið til að sjá verðmæti fyrirtækja í ársreikningum. Ég myndi ekki segja að þetta gildi í raun og veru, bara í bókhaldslegum skilningi.
Ég á bágt með að sjá að blaðamenn átti sig ekki á þessu, en hvers vegna gera þeir þetta þá? Þeir svo sem eru ekki einir um að gera þetta, þetta gera mjög margir að því mér virðist.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.11.2007 | 17:30
Neyslusamfélag í hnotskurn
Ég sá fjallað um þessa auglýsingu á annari síðu.
Þetta er ótrúlegt verð fyrir jafn ómerkilegt fyrirbæri eins og þessi karfa er. Og fólk kaupir svona lagað.
Skýringin á því af hverju fólk kaupir svona vörur er einföld: Málið snýst ekki hvað maður er að kaupa, heldur hvað varan segir um mann sjálfan. Nú veit ég ekki nákvæmlega hvað það segir um mann þegar maður á Mirale-vörur, en ef fólk gerir jafn mikið úr verðinu (í samtölum, auglýsingum og svo frv.) og er gert í auglýsingunni þarna býst ég við að skilaboðin séu þau að maður á peninga. Klárlega geta svoleiðis skilaboð myndast með tímanum. Önnur skilaboð geta auðvitað þróast líka.
Hegðun sem fylgir því að kaupa vörur sem mestmegnis er ætlað að segja um mann er léleg nýting á því sem keypt er. Þetta sjáum við hér í Reykjavík: Fólk hendir allskyns nýlegum búnaði sem bilar lítillega (sjónvörpum t.d.), skiptir um bíl á 3-4 ára fresti, lætur rífa hús sem hafa ekki enn náð þrítugsaldrinum og svo framvegis. Fólk gerir þetta vegna þess að vörurnar, húsin og hlutirnir hafa ekki lengur þá merkingu sem fólk sækist eftir og það vill nýtt í staðinn sem hefur þá merkingu.
Auðvitað eru ekki allir sem taka þátt í svona vitleysu og ekki á þessum forsendum, en þeir eru nógu margir til að rekstur verslana sem selja rándýrar ómerkilegar vörur borga sig, þeir eru nógu margir til að bílasala blómstar og svo framvegis. Þeir eru líka nógu margir til að mynstrið verði áberandi og til að valda skaða á umhverfi okkar og náttúrunni.
Þetta er klárlega mein í samfélagi okkar. Og auðvitað líka í samfélögum sem eru með sama vanda.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)