Tilgangurinn með þessari síðu

Eftir að hafa skoðað mínar eigin færslur aðeins betur sé ég að það má vel túlka þessi skrif mín hérna sem tuð. Ég held að ég útskýri tilganginn með þessari síðu aðeins. 

Ég hef núna nýlega tekið aftur til við að lesa greinar íslenskra fjölmiðla um vísindi eftir nokkuð gott hlé og hef áttað mig smám saman á því að þeir segja alls ekki rétt frá vísindum.  Margar greinar eru í þeim dúr að þær eru skrifaðar upp úr grein sem vísindamenn fá birta í einhverju vísindatímariti. En það er grunnvandamál við það: Einstakar rannsóknir eru að jafnaði hvorki lýsandi fyrir vísindaheiminn né það viðfangsefni sem menn eru að rannsaka. Einstakar rannsóknir mynda oftast nær brot úr heildarmynd sem verður smám saman til, og það er þessi heildarmynd sem verður til þess að vísindamenn ná samstöðu um að þeir hafi náð að lýsa viðfangsefni sínu nægilega vel. Það að ná að mynda þessar heildarmynd tekur yfirleitt langan tíma. Það getur þó vel átt við að segja einstökum rannsóknum, til dæmis þegar um er að ræða frumkvöðlarannsóknir, en þá þarf að gjöra svo vel og taka fram að um sé að ræða fyrstu niðurstöður og að líkindum eigi mikið eigi eftir að rannsaka.

Hitt sem ég sé er að þeir sem skrifa greinarnar skrifa þær upp eftir erlendum fjölmiðlum. Ég veit það  hefur gerst að grein hefur verið skrifuð upp af einhverjum fjölmiðli úr vísindatímariti, sú grein var þýdd af öðrum og sá þriðji hefur þýtt greinina frá þeim sem var annar í röðinni. Ætli það sé algengt? Hvernig ætli merkingin fari þegar svoleiðis er farið með, sérstaklega ef þýðingin er lausleg, eins og mig grunar að sé raunin? Fyrst menn eru að þessu, af hverju ekki að gera þetta sjálfir? Og geta heimilda! Ekki bara segja, sem dæmi: Þetta kemur fram í Annals of Internal Medicine, eins og er svo gjarnan. Mun betra væri: Þetta kemur fram í desemberhefti Annals of Internal Medicine. Það er ekkert að því heldur að setja tengil í greinina! 

Vísindagreinar fjölmiðlana þurfa ekki að vera stórar, flóknar eða neitt slíkt. En þær þurfa að hafa markvissan tilgang - sem mér sýnist að þeim skorti í dag. Hvernig væri að hafa að markmiði að segja frá núverandi skoðun vísindasamfélagsins á ýmsum atriðum? Til dæmis tengslum rauðvínsdrykkju og hjartasjúkdóma? Það að segja frá núverandi skoðun væri mjög gagnlegt fyrir almenning, fólk getur þá breytt hegðun sinni til samræmis þeirri skoðun sem vísindamenn hafa, sér og öðrum til hagsbóta. Höfuðmarkmið vísindanna er jú gagnsemi. Þegar ég segi núverandi skoðun vísindasamfélagsins dugir ekki til að vísa í einhverja tvo einstaklinga sem eru á sitthvorri skoðuninni. Það gengur ekki - einhverjir tveir eru ekki lýsandi fyrir vísindasamfélagið. Ef vísindasamfélagið er alls ekki sammála, væri gáfulegast að telja upp helstu rök allra hópa (sem vilja svo gjarnan myndast) og vísa svo veginn með hvar má fá frekari upplýsingar. Það finnst mér vera góð fjölmiðlun og þannig fjölmiðlun vil ég svo gjarnan sjá.

Fréttaflutningur fjölmiðlana held ég að geri það að verkum að fólk fær ranga hugmynd af því hvað vísindi eru. Sumir halda jafnvel að vísindi séu tæki eða tól, sem er alrangt. Sumir halda jafnvel að vísindi séu bara eitthvað sem gerist á tilraunastofum, og helst þurfa tilraunaglös og hvítir sloppar að koma mikið við sögu. Það er líka rangt. Vísindi er hugmyndafræði og ákveðin vinnubrögð, og til að útskýra það nánar er við hæfi, að Vísindavefnum sé gefið orðið: Hvað eru vísindi? Það er rétt að leggja áherslu á að vísindi felast ekki í neinu yfirflóknu né óskiljanlegu og þau eru ekki bara fyrir útvalda að skilja. 

Stundum finnst mér eins og greinarnar fjölmiðlana séu settar fram í einhverju háði, sérstaklega þegar þær fjalla um eitthvað sem þykir sjálfsannað. Oftar er þeim þó gert temmilega hátt undir höfði. Stundum finnst mér líka eins og markmiðið með greinunum sé eitthvað allt annað en að fræða fólk, kannski frekar eins og sumar greinar sé ætlað verða bitbein einhvers kjaftasnakks? Ég vona ekki, það er innilega leiðinlegt ef svo er. Vissulega má gera gys að vísindum, vísindamönnum eins og öllu öðru, en mér finnst fjölmiðlar ekki vera rétti staðurinn, sérstaklega þegar ímynd vísindanna er svo misskilin eins og raun ber vitni. Það er bara til skaða.

Ég er sem sagt að þessu til að fólkið í landinu fái meira af gagnlegum upplýsingum, en líka til að þetta sama fólk fái betri hugmynd um hvað vísindi eru í gegnum fjölmiðla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eitt sem er fróðlegt er líka hvernig ef að eitthvað bendir til að viðtekinn skoðunn sé röng, þá telst það fréttaefni ;)

Pétur H. Petersen 

Petur Henry (IP-tala skráð) 26.1.2007 kl. 19:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband