7.7.2008 | 01:45
Hvað sálfræði er og hvað ekki
Ég stundum reyni að komast hjá því í samtölum að segja hvað ég sé að læra. Ég nefninlega er að læra sálfræði og ef ég segi fólki að ég sé að læra sálfræði, heldur það oft að ég sé að læra að verða sálfræðingur, einhver sem reynir að hjálpa öðrum sem á erfitt með líf sitt. Ég met starf sálfræðinga mikils og ég er ánægður með að það sé fólk úti í samfélaginu sem er tilbúið til að hjálpa fólki sem á erfitt í lífi sínu, en ég ætla samt ekki að verða sálfræðingur.
Sálfræði fjallar um hegðun, hugsun og heilann. Sálfræði fjallar sem sagt um alla mannlega breytni, alla hugsun og alla afkima heilans sem viðkoma hegðun og hugsun. Sá hluti sálfræði sem fjallar um hvernig á að hjálpa fólki sem á erfitt, eða hvað þá þjakar það, er því aðeins hluti af sálfræði. Ég hef til dæmis lært um sálfræði neytenda; t.d. af hverju fólk kaupir meira af vörum þegar þær eru á tilboði - og aðeins hver og einn má aðeins kaupa þrjú stykki.
Verst að um leið og ég nefni þetta dæmi heldur fólk stundum að ég sé hafi lært að selja meira - eða þá hvernig er best að stilla vörum upp í Hagkaup til að fá fólk til að kaupa meira af drasli sem það þarf ekki. Nei, ég lærði það aldrei. Ég hef ekki áhuga á því, og mér finnst það ósiðleg iðja að misnota vísindin til að auka hagnað fyrirtækja, á kostnað líðan fólks og á kostnað náttúrunnar. Ég hins vegar hef tölverðan áhuga á að læra hvað hvetur það fólk áfram, sem reynir að finna leiðir til að selja meira af vörum í Hagkaup - og hvað það er að hugsa!
Sálfræði fjallar sem sagt um hvað veldur hegðun og hvaða hugsanir eru í gangi þegar fólk gerir eitthvað. Það væri til dæmis sálfræðileg spurning hvað olli því að Adolf Hitler hafði svo mikla andúð á gyðingum - eða þá hvað varð til þess að Amelia Earhart reyndi að fljúga í kringum jörðina. Það er líka sálfræðileg spurning hvað varð til þess að ég skrifaði þennan pistil.
En það er ekki sálfræði að fá fólk til að leggjast á bekk og biðja það um að blaðra um heima og geima, eða þá um draumana sína. Það er kukl sem sálfræðingar voru hrifnir af á tímabili - og sumir eru enn. Sumir geðlæknar eru enn að fikta við þessa iðju. Rétt er það að sálfræðingar tala mikið við fólkið sem það er að hjálpa, en sjaldnast um drauma þess. Og sálfræðingar leggja líka fyrir verkefni sem hjálpa fólki að ná heilsu, ef það leysir - eitthvað sem Fraud gerði lítið af. Rétt er líka að impra á því að önnur sálfræði byggist ekki á kenningum Freuds - þeim kenningum hefur að mestu verið bolað úr nútímasálfræði.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.