Vinna íslendingar of mikið?

Eftir Guðmund D. Haraldsson og Smára McCarthy:

Árið 1980 vann hver vinnandi maður á íslandi að meðaltali um 1.800 stundir á ári. Árið 2009 var þessi tala óbreytt og hafði haldist óbreytt allan þann tíma; óbreytt í tæp 30 ár. Áratugina frá 1950 hafði vinnan minnkað allnokkuð, en hætti að minnka árið 1980[1]. Ísland er nú í þeirri stöðu að hér vinnur fólk mest af öllum norðurlöndunum og meira en íbúar flestra evrópuríkja[2].

Ísland er líka í þeirri vafasömu stöðu meðal OECD-landanna að landsframleiðsla er hér mikil á hvern íbúa – en fyrir hverja unna vinnustund er hún í lægri kantinum[3]. Á þessu kunna að vera ýmsar skýringar. Ein af þeim gæti hreinlega legið í því að vinnudagurinn sé of langur, fólk nái ekki að hvílast nóg vegna mikillar vinnu[4].

Getur hreinlega verið að íslendingar vinni of mikið? Svo teljum við vera. Fleira en léleg framleiðni á klukkustund og fjöldi vinnustunda styður það. Íbúar margra landa kvarta undan því að þeir séu oft of þreyttir til að sinna heimilisstörfunum, þegar þeir koma heim úr vinnu. Ísland trónir að þessu leyti á toppnum miðað við norðurlöndin og hér kvarta hlutfallslega fleiri en íbúar margra evrópulanda undan þessu. Um 40% íslendinga segjast jafnframt vilja vinna minna og vilja margir (um 40-50%) eyða meiri tíma með fjölskyldu og vinum[5].

Einhverjir gætu talið að þetta hafi breyst í kjölfar samdráttar í efnahagslífinu. Það má vera, en breytingarnar eru trúlega litlar. Ástæðan er sú að vinnudagur þeirra sem héldu vinnunni hefur lítið breyst – þeir sem hafa vinnu vinna álíka lengi og áður[6]. Höfum líka í huga að langir vinnudagar hafa tíðkast hér lengi, samanber að fólk vinnur í dag álíka margar stundir árið 1980[7]. Langur vinnudagur hefur lifað af margar hagsveiflur.

Framangreint teljum við góð rök fyrir því að geri eigi það sem vélvæðingin átti upprunalega að gera: Stytta vinnudaginn. Já, það er hægt, þrátt fyrir erfiðleika í atvinnulífinu. Verði vinnudagurinn styttur, er einsýnt að fleiri muni fá vinnu; sú vinna sem þarf að vinna minnkar ekki, og þarf því að ráða fleiri til að vinna hana. Framleiðni mun líklegast ekki minnka, jafnvel mun hún aukast. Rannsóknir erlendis frá sýna að langir vinnudagar (eins og tíðkast á íslandi) stuðla að minnkaðri framleiðni[8]. Með því að stytta vinnutímann, eykst framleiðnin.

Stytting vinnudagins í sex stundir[9] er raunhæft markmið. Með því móti myndi atvinnuleysi minnka, álag og ofþreyta myndi minnka, en framleiðnin myndi haldast svipuð. Stéttarfélögin, sem hafa lítt látið í sér heyra undanfarin ár, þurfa að berjast öll sem eitt fyrir styttingu vinnudagsins. Ástandið í samfélaginu er kjörið tækifæri til einmitt breyta fyrirkomulagi vinnunnar. En í kjarasamningum þarf að semja um styttri vinnudag og búa svo um að vinnudagurinn styttist hjá þeim sem svo vilja[10]. Viljinn er klárlega fyrir hendi.

Er þetta hægt strax? Já, en full áhrif munu koma í ljós eftir nokkurn tíma. Hafa aðrar þjóðir gert þetta? Já – t.d. er ekki langt síðan almennur vinnudagur í þýskalandi var styttur. Almennur vinnudagur í Bandaríkjunum hefur einnig nokkrum sinnum verið styttur[11]. Stytting vinnudagsins er ekkert nýtt, slíkt hefur margoft verið gert. Slíkar ráðstafanir eru mögulegar og virka; sagan sýnir það.

Höldum áfram þar sem frá var horfið árið 1980 og minnkum vinnuna. Lífið er til að lifa, ekki bara vinna.

———————
[1]: Total Economy Database. Gagnabanki sem geymir upplýsingar um ýmsar hagstærðir. http://www.conference-board.org/
[2]: Total Economy Database.
[3]: Kolbeinn H. Stefánsson, 2008. Samspil vinnu og heimilis. Álag og árekstrar. Rannsóknarmiðstöð um þjóðmál, Félagsvísindastofnun Haśkóla Íslands.
[4]: T.d. er línulegt samband milli framleiðslu á klukkutíma og vinnustunda íbúa landsins á ári. Því fleiri vinnustundir á ári, því minni framleiðsla á klukkustund. Sjá nánar í grein Þorvaldar Gylfasonar í Skírni 2007: Evrópa: minni vinna, meiri vöxtur.
[5]: Kolbeinn H. Stefánsson, 2008.
[6]: Hagstofa íslands, 2010. Hagtíðindi, laun, tekjur og vinnumarkaður: Vinnumarkaður 1991-2009.
[7]: Total Economy Database.
[8]: The Overworked American eftir Juliet B. Schor, 1990. Basic books. Sjá einnig Working long hours: a review of the evidence (2003). The institute for employment studies.
[9]: Þessi tala er ekki háheilög. En hafa ber í huga að stytting t.d. í sjö stundir myndi trúlega ekki nægja – atvinnurekendur myndu trúlega taka á sig aukna yfirvinnu og borga kostnaðinn sem af því myndi hljótast. Með því að stytta vinnudaginn í sex stundir ætti þetta síður að gerast.
[10]: Sjá t.d. hugmyndir um hvernig það er mögulegt í bókinni The Overworked American eftir Juliet B. Schor.
[11]: The Overworked American.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Bragi Sigurðsson

Alveg sammála ykkur í þessu.

Þetta er mál sem ég hef líka pælt mikið í og langar því að leggja orð í belg.

Á meðan hin Norðurlöndin og reyndar öll Vesturlönd hafa fyrir mörgum áratugum komið á 40 tíma vinnuviku eða minna í raun þá hjakka Íslendingar í sama farinu og ekki séð frammá að nein breyting verði þar á til batnaðar nema að síður sé.

Ég man eftir verkalýðsforkólfum sem komu á vinnustaðinn þar sem ég vann og sögðu þegar rætt var um lágt kaup: "Þið þurfið nú ekkert að kvarta hér, þið hafið svo mikla yfirvinnu".

Vandamálið er fyrst og fremst að dagvinnulaunin eru svo lág að það er engin leið að framfleyta sér á þeim.

Þetta vita atvinnurekendur og verkstjórar og að þeir fá ekki neitt starfsfólk nema að geta boðið uppá yfirvinnu. "Næg vinna í boði". Hvergi nema á Íslandi myndi mönnum detta í hug að lokka fólk með slíku. Og engin launþegi utan Íslands myndi heldur láta lokkast af slíkum gylliboðum.

Verkstjórar vita líka að ef þeir skipulegðu vinnuna það vel að verkefnin entust ekki nema 8 tíma á dag þá myndi besti mannskapurinn fljótlega láta fætur sínar hafa það og fara þangað sem "næg vinna er í boði".

Ég man eftir því að í byrjun níunda áratugarins eða lok þess áttunda þá var sett á yfirvinnubann í fiskvinnslunni vegna vinnudeilu, og stóð það í fleiri vikur. Eftir nokkrar vikur kom í ljós að fiskvinnslufólkið afkastaði jafn miklu á þessum átta tímum eins og það gerði áður með óheyrilegri yfirvinnu frammá kvöld og um helgar.

Þetta þótti sumum býsna athyglisvert en engum datt mér vitanlega í hug að draga einhvern lærdóm af þessari uppgötvun.

Síðan var yfirvinnubanninu aflétt og fólk tók upp yfirvinnugaufið aftur og undi glatt við sitt.

Þessi vítahringur hefur verið í gangi frá ómunatíð; starfsfólk dregur af sér í vinnunni af því að það er þreytt og hundleitt eftir allt yfirvinnugaufið og líka til þess að eitthver verkefni verði eftir til þess að hægt sé að réttlæta áframhaldandi yfirvinnu sem aftur gefur því möguleika að lifa af laununum sínu.

Við Íslendingar höldum að við séum allra manna duglegastir og vísum þá gjarnan í alþjóðlegan samanburð um lengd vinnutíma.

En sé litið á afköst per tíma þá erum við á botninum í samanburði við önnur Vesturlönd.

Það er ekki sjálfgefið að meta dugnað eingöngu eftir því hve marga klukkutíma manni tekst að hanga í vinnunni.

Ég get nefnt ótal dæmi frá því ég var launþegi á Íslandi um það hvernig vinnan gekk fyrir sig.

Það var mætt um kl. 8 og kortinu troðið í klukkuna oft tíu mínútum yfir. Síðan var farið að dunda sér, drekka kaffi, troða sér í gallann og kjafta. Þótti gott ef menn voru komnir að verki tuttugu mínútur yfir. Korter yfir níu var svo tími til að fara að hægja á sér fyrir morgunkaffið sem alltaf tók drjúgan hálftíma þó að það væri ekki nema tuttugu mínútur samkvæmt samningum.

Eitt sinn vann ég sem byggingaverkamaður. Byggingarstaðurinn var í Vesturbæ Reykjavíkur en fyrirtækið sem ég vann hjá var suður í Hafnarfirði.

Á morgnana steðjuðu því allir starfsmenn til Hafnarfjarðar og eftir hæfilegan aðlögunartíma var lagt af stað og komið á byggingarstaðinn um kl. 9 og var þá bara hálftími þangað til hægt var að fara í kaffið. Eftir kl. 17 hófst svo yfirvinnan. kl. hálf-sjö var byrjað að mjaka sér niður af hæðum til að komast í kvöldmatinn og uppúr átta var komið að verki aftur og uppúr níu var farið að tygja sig af stað heim í Hafnarfjörðinn. Vinnutíma lauk kl. 22.00

Fyrir þetta voru greiddir átta tímar í dagvinnu og fimm tímar í yfirvinnu en af þessum þrettán tímum var virkur tími ekki meiri en í hæsta lagi átta tímar. Auk þess þurfti vinnuveitandinn að kaupa handa okkur kvöldmat á veitingahúsi.

Svona var unnið vikum og mánuðum saman að viðbættum laugardeginum og þurfti maður ekki að skammast sín fyrir skort á yfirvinnutímum í samsætum, heldur reiknaðist sem fullgildur.

Ég hélt satt að segja að karlmennska á Íslandi væri hætt að mælast í fjölda yfirvinnustunda og farin að mælast í stærðinni á jeppadekkjunum en ýmislegt bendir til að svo sé ekki.

Þar kom þó að því að ég þreyttist á þessu lífi og flutti til Svíana sem við Íslendingar oft teljum vera heldur litla kalla í samanburði við okkur.

Ég hafði heyrt af því undri að þar gæti fólk lifað af dagvinnulaunum einum saman og væri hreint ekkert sólgið í yfirvinnu. Skrítið fólk.

En það var fleira sem var öðru vísi á þeim vinnustað sem ég kom til í Svíþjóð. Allir voru mættir að minnsta kosti korteri áður en vinnutíminn hófst. Og þegar klukkan var sjö voru allir komnir í vinnugallann og að sínum verkefnum og byrjuðu að vinna á mínútunni. Tuttugu mínútna kaffitími stóð aðeins yfir í tuttugu mínútur og hangs í síma og eilíft skrepp var óþekkt. Allt skrepp fyrir utan til læknis var dregið af launum.

Verkstjórar byrjuðu hálftíma á undan öðrum til þess að ekki stæði á verkefnum þegar hinir mættu.

(Ég sá reyndar í Spaugstofunni að Pólverjar væru að leggja Íslenska vinnumenningu í rúst).

Væri þetta ekki eitthvað sem launþegar og atvinnurekendur á Íslandi gætu sameinast um í stað þessa söngs um of langan vinnutíma og kröfur um átta tíma vinnudag sem sunginn hefur verið á 1 maí á hverju ári í meira en fimmtíu ár án þess að nokkur hugur virðist fylgja máli?

Dagvinnulaun sem hægt er að lifa af, vel skipulögð vinna frá hendi atvinnurekenda og alvöru vinnubrögð hjá launþegum?

Kostirnir ættu að vera augljósir öllum. Meiri frítími fyrir fjölskylduna og óþreytt og vakandi starfsfólk sem aftur eykur afköst og minnkar slysahættu. Svona mætti lengi telja.

Hver þénar á þessu fyrirkomulagi?

Enginn, hvorki launþegar né atvinnurekendur eða þjóðfélagið í heild.

Jón Bragi Sigurðsson, 22.1.2011 kl. 22:59

2 Smámynd: Guðmundur D. Haraldsson

Takk fyrir þetta. Ég held að þú hafir rétt fyrir þér að ýmsu leyti.

Þessi vítahringur hefur verið í gangi frá ómunatíð; starfsfólk dregur af sér í vinnunni af því að það er þreytt og hundleitt eftir allt yfirvinnugaufið og líka til þess að eitthver verkefni verði eftir til þess að hægt sé að réttlæta áframhaldandi yfirvinnu sem aftur gefur því möguleika að lifa af laununum sínu.

Akkúrat. Yfirvinnan leiðir af sér áframhaldi yfirvinnu til að halda uppi sömu afköstum - menn virðast ekki hugsa út í það að langvarandi yfirvinna dregur úr afköstum. Þetta þarf að breytast. En það virðist aldrei komast í umræðuna almennilega.

Þeir sem semja virðast bara halda status quo,þora ekki að rugga bátnum?

Við Íslendingar höldum að við séum allra manna duglegastir og vísum þá gjarnan í alþjóðlegan samanburð um lengd vinnutíma.

En sé litið á afköst per tíma þá erum við á botninum í samanburði við önnur Vesturlönd.

 Já. Þetta helst í hendur við þetta yfirvinnurugl, held ég. Ég held að það geti þurft að "taka til hendinni" á ýmsum stöðum þegar kemur að skipulagi vinnunnar.

Sex tíma vinnudagur er alveg raunhæfur á íslandi, að ég held - án þess að við töpum lífsgæðum. Það vantar bara að menn komi sér í það verkefni.

Guðmundur D. Haraldsson, 22.1.2011 kl. 23:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband