Bloggfærslur mánaðarins, desember 2010

Sköpum atvinnu - Eða hvað?

Eftir Guðmund D. Haraldsson og Smára McCarthy:

Undanfarin ár hefur þessi söngur heyrst oft og iðulega: „Reiknað er með að fullgerð muni verksmiðjan skapa um 30 störf“. Talan er stundum hærri og stundum lægri. Á eftir þessari setningu fylgir oft önnur: „Að auki er reiknað með að um 80 afleidd störf skapist“. Það að einhver verksmiðja - eða, gagnaver, álver eða hvað það nú er, muni skapa störf, er talið svo mikilvægt að nánast engu skiptir hverju er fórnað, náttúrunni eða auðlindum hvers konar. Störfin sem starfsemin mun gefa af sér réttlætir hvað sem er. Það er eins og það eitt að einhver framkvæmd skapi störf sé mikilvægara en hvað sé framleitt.

Það sem er undarlegt við þetta viðhorf er sjálf vinnan sem á að vinna í verksmiðjunni, gagnaverinu eða hvað á í hlut. Eðli vinnunnar virðist ekki skipta máli, heldur að störfin skapist. Á Íslandi eru fæst störf við framleiðslu matar, drykkjar, fatnaðar eða þess sem mannverur þurfa til að lifa af. Þvert á móti eru flest störf í þjónustugeiranum. Flestir vinna við eitthvað eins og að selja náunganum dekk fyrir bílinn sinn, en sá er líklegur til að selja öðrum saumavélar, olíu eða bensín, án þess að taka þátt í framleiðslunni. Um 60% starfa á Íslandi eru af þessum toga.

Það sem við ættum að stefna að er ekki blind sköpun starfa án tillits til þess hvernig vinnu við viljum vinna. Við þurfum ekki að fjölga störfum í gagnaverum eða á dekkjarverkstæðum. Það ætti frekar að stefna að fækkun vinnustunda Íslendinga í næstu kjarasamningum, og láta svo markaðskerfið sjá til þess að þeir sem hafa ekki vinnu, fái þá vinnu sem vinna þarf þegar vinnudagur annara styttist. Fækkun vinnustundanna ætti ekki að þýða lægri laun, heldur óbreytt laun þrátt fyrir fækkunina.

Íslendingar geta hæglega orðið öðrum fordæmi í þeim samdrætti sem ríður yfir hin efnuðu hagkerfi heimsins. Með þessu móti má nefnilega draga úr atvinnuleysi - en á sama tíma fjölga frístundum vinnandi fólks. Hugmyndin er svo sem ekki ný því að í kreppunni miklu í Bandaríkjunum var næstum búið að setja lög um skemmri vinnudag, en með því móti átti einmitt að draga úr atvinnuleysi - og fjölga frístundum. Af þessu varð ekki vegna íhlutunar fyrirtækjaeigenda, en þeir töldu hagsmuni sína liggja í lengri vinnudegi og komu í veg fyrir lagasetninguna. Búast má við svipuðum mótbárum frá fyrirtækjaeigendum nú, en eins og kom fram í grein okkar í Fréttablaðinu 4. desember sl. benda rannsóknir til þess að slíkar mótbárur myndu í raun ganga gegn þeirra eigin hagsmunum.

En er það ekki brjálæði að stytta vinnudaginn, þegar hagkerfið er ótraust, jafnvel við það að hrynja? Hreint ekki og fyrir því eru margar ástæður: 1) Framleiðsla mun líklegast aukast verði vinnudagurinn styttur, það hefur nær alltaf gerst við styttingu vinnudags - sem hefur margoft og víða verið gert á 20. öld; 2) Framleiðslan á hverja unna stund eykst, en við það minnkar kostnaður við heildarframleiðslu og vöruverð lækkar; 3) Ef vöruverð lækkar, má ætla að eftirspurn í hagkerfinu aukist. Með meiri eftirspurn eftir vörum þarf fleiri í vinnu. 4) Fleiri einstaklingar gætu komið að þeirri vinnu sem raunverulega þyrfti að vinna, sem myndi minnka atvinnuleysi og þar með þrýsting á atvinnuleysistryggingasjóð. Kostnaðurinn við framfærslu flyst frá ríki yfir á vinnuveitendur; 5) Styttri vinnudagur fyrir sama kaup og fyrir styttingu mun ekki setja hagkerfið á hliðina, eins og ætla mætti við fyrstu sýn. Það hefur aldrei gerst, þrátt fyrir að vinnudagurinn hafi oft áður verið styttur við slæmar efnahagslegar aðstæður. Það er mjög fátt sem breytist í hagkerfinu við vinnutímastyttingu. Framleiðsla myndi aukast, og aukinn frítími myndi sennilega leiða af sér aukna neyslu, en almennt yrði engin gríðarleg grundvallarbreyting.

Segjum sem svo að framleiðslan aukist ekki við styttingu vinnudagsins og atvinnuleysi minnki ekki vegna þess, heldur að hún standist í stað. Þá erum við samt betur sett, vegna þess að þeir sem hafa yfir höfuð vinnu, vinna skemur. Lífsgæði eru betri.

Einhverjir munu halda því fram að atvinnuleysi kunni að aukast við styttingu vinnudags, og að framleiðslan minnki. Röksemdir fyrir því eru oftast á þá leið að nú þegar sé hámarksframleiðni á hverja vinnustund náð, en ýmsar rannsóknir sýna að svo er ekki. Jafnframt halda sumir því fram að meiri frítími muni gera fólk latara, en það hefur ekki verið raunin þegar þetta hefur verið reynt annarsstaðar.

Einhverjir myndu segja að breytingar eins og þessar séu heppilegri á hagvaxtartímum, því það sé auðveldara þá. En það er alveg jafn erfitt, jafnvel erfiðara, því þá eru hvatar fyrir aukinni vinnu miklir.

Það er fínt að skapa störf, það er ágætt að reyna að tryggja öllum atvinnu og afkomu. En gleymum ekki að spyrja hvernig störf, hversu mikla atvinnu og hversu góða afkomu. Vel menntuð þjóð sem okkar ætti að vera gagnrýnni á vinnumarkaðinn; heimta sjálfbærni og jafnan aðgang að afurðum auðlindanna, en umfram það að heimta störf við hæfi og mun meiri frítíma til að njóta lífsins utan vinnunnar.


Vinna íslendingar of mikið?

Eftir Guðmund D. Haraldsson og Smára McCarthy:

Árið 1980 vann hver vinnandi maður á íslandi að meðaltali um 1.800 stundir á ári. Árið 2009 var þessi tala óbreytt og hafði haldist óbreytt allan þann tíma; óbreytt í tæp 30 ár. Áratugina frá 1950 hafði vinnan minnkað allnokkuð, en hætti að minnka árið 1980[1]. Ísland er nú í þeirri stöðu að hér vinnur fólk mest af öllum norðurlöndunum og meira en íbúar flestra evrópuríkja[2].

Ísland er líka í þeirri vafasömu stöðu meðal OECD-landanna að landsframleiðsla er hér mikil á hvern íbúa – en fyrir hverja unna vinnustund er hún í lægri kantinum[3]. Á þessu kunna að vera ýmsar skýringar. Ein af þeim gæti hreinlega legið í því að vinnudagurinn sé of langur, fólk nái ekki að hvílast nóg vegna mikillar vinnu[4].

Getur hreinlega verið að íslendingar vinni of mikið? Svo teljum við vera. Fleira en léleg framleiðni á klukkustund og fjöldi vinnustunda styður það. Íbúar margra landa kvarta undan því að þeir séu oft of þreyttir til að sinna heimilisstörfunum, þegar þeir koma heim úr vinnu. Ísland trónir að þessu leyti á toppnum miðað við norðurlöndin og hér kvarta hlutfallslega fleiri en íbúar margra evrópulanda undan þessu. Um 40% íslendinga segjast jafnframt vilja vinna minna og vilja margir (um 40-50%) eyða meiri tíma með fjölskyldu og vinum[5].

Einhverjir gætu talið að þetta hafi breyst í kjölfar samdráttar í efnahagslífinu. Það má vera, en breytingarnar eru trúlega litlar. Ástæðan er sú að vinnudagur þeirra sem héldu vinnunni hefur lítið breyst – þeir sem hafa vinnu vinna álíka lengi og áður[6]. Höfum líka í huga að langir vinnudagar hafa tíðkast hér lengi, samanber að fólk vinnur í dag álíka margar stundir árið 1980[7]. Langur vinnudagur hefur lifað af margar hagsveiflur.

Framangreint teljum við góð rök fyrir því að geri eigi það sem vélvæðingin átti upprunalega að gera: Stytta vinnudaginn. Já, það er hægt, þrátt fyrir erfiðleika í atvinnulífinu. Verði vinnudagurinn styttur, er einsýnt að fleiri muni fá vinnu; sú vinna sem þarf að vinna minnkar ekki, og þarf því að ráða fleiri til að vinna hana. Framleiðni mun líklegast ekki minnka, jafnvel mun hún aukast. Rannsóknir erlendis frá sýna að langir vinnudagar (eins og tíðkast á íslandi) stuðla að minnkaðri framleiðni[8]. Með því að stytta vinnutímann, eykst framleiðnin.

Stytting vinnudagins í sex stundir[9] er raunhæft markmið. Með því móti myndi atvinnuleysi minnka, álag og ofþreyta myndi minnka, en framleiðnin myndi haldast svipuð. Stéttarfélögin, sem hafa lítt látið í sér heyra undanfarin ár, þurfa að berjast öll sem eitt fyrir styttingu vinnudagsins. Ástandið í samfélaginu er kjörið tækifæri til einmitt breyta fyrirkomulagi vinnunnar. En í kjarasamningum þarf að semja um styttri vinnudag og búa svo um að vinnudagurinn styttist hjá þeim sem svo vilja[10]. Viljinn er klárlega fyrir hendi.

Er þetta hægt strax? Já, en full áhrif munu koma í ljós eftir nokkurn tíma. Hafa aðrar þjóðir gert þetta? Já – t.d. er ekki langt síðan almennur vinnudagur í þýskalandi var styttur. Almennur vinnudagur í Bandaríkjunum hefur einnig nokkrum sinnum verið styttur[11]. Stytting vinnudagsins er ekkert nýtt, slíkt hefur margoft verið gert. Slíkar ráðstafanir eru mögulegar og virka; sagan sýnir það.

Höldum áfram þar sem frá var horfið árið 1980 og minnkum vinnuna. Lífið er til að lifa, ekki bara vinna.

———————
[1]: Total Economy Database. Gagnabanki sem geymir upplýsingar um ýmsar hagstærðir. http://www.conference-board.org/
[2]: Total Economy Database.
[3]: Kolbeinn H. Stefánsson, 2008. Samspil vinnu og heimilis. Álag og árekstrar. Rannsóknarmiðstöð um þjóðmál, Félagsvísindastofnun Haśkóla Íslands.
[4]: T.d. er línulegt samband milli framleiðslu á klukkutíma og vinnustunda íbúa landsins á ári. Því fleiri vinnustundir á ári, því minni framleiðsla á klukkustund. Sjá nánar í grein Þorvaldar Gylfasonar í Skírni 2007: Evrópa: minni vinna, meiri vöxtur.
[5]: Kolbeinn H. Stefánsson, 2008.
[6]: Hagstofa íslands, 2010. Hagtíðindi, laun, tekjur og vinnumarkaður: Vinnumarkaður 1991-2009.
[7]: Total Economy Database.
[8]: The Overworked American eftir Juliet B. Schor, 1990. Basic books. Sjá einnig Working long hours: a review of the evidence (2003). The institute for employment studies.
[9]: Þessi tala er ekki háheilög. En hafa ber í huga að stytting t.d. í sjö stundir myndi trúlega ekki nægja – atvinnurekendur myndu trúlega taka á sig aukna yfirvinnu og borga kostnaðinn sem af því myndi hljótast. Með því að stytta vinnudaginn í sex stundir ætti þetta síður að gerast.
[10]: Sjá t.d. hugmyndir um hvernig það er mögulegt í bókinni The Overworked American eftir Juliet B. Schor.
[11]: The Overworked American.


Mogginn og Infotainment

Infotainment-vs-real-news

Hér til hliðar er skjáskot af forsíðu mbl.is frá því í dag (1. des). Það fer um mann kjánahrollur að sjá alvöru fréttir í bland við „fréttir“ af einhverjum leikara. Annað er klárlega fréttir, hitt er „infotainment“.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband